Tuesday, 30 October 2012

Gangandi Hulk og að sjálfsögðu Spiderman :)

Á fimtudaginn þá kem ég heim, Óli náði í krakkana í skólann og leikskólann og allir sátu við borðið að fá sér síðdegis hressingu. Búið að vera nóg að gera hjá fjölskyldunni og við vorum öll að ræða málin og segja frá síðustu dögum. Óli segir þá við mig að konurnar á leikskólanum hafi sagt að Viktor fari nú bara að labba á næstu dögum hann sé bara alveg að ná þessu.... ég sagði honum þá frá því að þegar við vorum saman heima deginum áður þá hafi hann einmitt sýnt góða takta, verið að standa upp sjálfur á miðju gólfi og taka 2-3 skref og svona. Svo stöndum við í eldhúsinu að ganga frá og Viktor er að fikra sig með veggnum að uppþvottavélinni (sem er í algjöru uppáhaldi) og svo tekur hann góð 6 skref útá gólfið í áttina til okkar.... Við vorum í sjöunda himni.... vá þvílík gleði og þegar hann pompaði á rassinn þá var sko klappað og trallað og veiað og bravóað..... hann var að sjálfsögðu svakalega glaður með sjálfan sig og foreldrarnir í skýjunum. Við þorðum nú ekkert að vona að nú væri þetta komið en þegar við vorum uppi að ganga frá upp á háaloft þá tekur hann sig bara til og byrjar að labba á milli allra hluta sem hann gat.... Að sjálfsögðu uppskar hann þvílík fagnaðarlæti og gleði... Ég get varla lýst tilfinningunum... þetta var svo yndislegt svo gleðilegt og gaman.
Ég held að margir foreldrar og þar með talið við áður en við eignuðumst Viktor gera sér ekki grein fyrir því hversu yndisleg öll þroskaþrep eru. Við gerum okkur ekki grein fyrir því og allt er svoldið sjálfsagt, að sjálfsögðu eru við öll rosalega glöð og hamingjusöm þegar litla barnið okkar getur gert eitthvað nýtt. Sýnir þroska og framför en þegar það kemur lítill einstaklingur inn í líf manns sem manni er sagt að sé ekki alveg eins og önnur börn þá breytist margt. Ég er þakklát fyrir allt það litla sem börnin mín sýna mér og hlutir sem ég horfði á Andreu gera og var auðvitað rosalega stolt yfir gefa mér aðra og miklu sterkari tilfinningu í dag... Ég er stolt af Viktori þegar hann raðar upp turni eða eins og hann gerði á fimmtudaginn byrjaði að labba en tilfinninginn er svo miklu sterkari núna, bæði útaf því að við höfum unnið hörðum höndum við að þjálfa hann og koma honum á bestu staði til að hann fái bestu þjálfun og því að núna þá veit ég að þetta er bara ekki eins sjálfsagt. Ég get sko alveg sagt ykkur það að þegar hann sleppti sér alveg þá fór ég að gráta... gleði hamingju tárum jáhá í mörghundruðusta skiptið hahah.





Á laugardaginn var svo  Halloween partý í skólanum hjá Andreu, hún vildi vera spiderman 2. árið í röð það kom ekkert annað til greina, hún tók ástfóstri við þennan vöðva massa búning/karakter í kringum fjögra ára afmælið sitt og hefur bara haldið tryggð síðan ;) Viktor fékk að fara sem Hulk :) fékk þessi fínu Didrikson ullarnærföt í jólagjöf síðustu jól frá frænkum sínum og komu þau að góðum notum ;)
Ég fékk reyndar Andreu til þess að íhuga það að vera beinagrind eða draugur næst en norn kemur ekki til greyna.... það er ekkert fyrir hana sagði hún mér. Mikið að gerast hjá þessari elsku núna og voru foreldrarnir svo stoltir þegar þau komu heim eftir foreldra viðtal og kennarinn ánægður með hana og hælir henni mikið fyrir hversu góða flæmsku hún talar. Henni sjálfri finnst þetta allt saman mjög sjálfsagt en henni finnst smá erfitt að vera stóra systir... Litla skinnið. Smá yfirþyrmandi kannski að bráðum á hún tvö lítil systkini:)
En hún er mikill pælari og húmoristi.... eftir einn fótboltaleik sem hún og liðið hennar spiluðu þá var hún mikið að velta fyrir sér hversu mikið hún vorkendi þjálfaranum. Pabbi hennar spurði hana nú hvað afhverju geriru það....? Æ hann Ceryl (strákur í liðinu hennar) hann er bara svo óþekkur og hlustar ekkert á þjálfarann.... (hmmm reyndar alveg rétt hjá henni) Pabbi hennar sagði við hana já æ það er alveg réttt, kannski þú getir reynt að segja honum að hlusta meira. Andrea sat hugsi í smá stund og sagði svo við pabba sinn.... Pabbi ég held það væri bara best að við myndum selja Ceryl........ hahahaha jáha pabbi hennar vissi lítið hvað hann átti að segja þarna annað en að hlæja. Var semsagt tiltölulega nýbúið að loka transfer glugganum hér í Belgíu og vinur okkar seldur til annars liðs..... :D

En yfir og út
S



brjálað að gera hjá græna kallinum ;)

fékk að taka með sér smá stuðningstæki.. enþá svo valtur ;)

Var að sjálfsögðu fyrstur á dansgólfið og elskaði reykvélina og allar græurnar :D


Smá pæjupósa í spiderman hahah







Monday, 15 October 2012

Lög tengd minningum

Það er held ég alltaf hægt að tengja eitthvað tímabil í ævi sinni við lög.. eins og til dæmis þegar ég heyri Ase of base þá bara man ég eftir menntó..... prodigy þá man ég eftir Þingó og diskóunum þar.
Svo er líka eitt og eitt lag sem minna þig á einhverja gleðistund í lífi þínu, ástasorg eða sorg. Til dæmis fær Óli alveg grænar bólur á rassinn þegar hann heyrir hvaða lag minnir mig á þegar við vorum að byrja saman..... hahahha Hefur ekkert endilega allt með textann að gera sem er oft hjá mér, heldur var það rosalega vinsælt þegar við vorum að kynnast og mér fannst það bara svo fallegt. Lagið er með Daniel Bedingfield og heitir if you´re not the one. Ástæðan fyrir því að hann meikar það ekki er að hann bjó í Englandi á þessum tíma og var þetta lag ofspilað.... fyrir utan auðvitað að þetta er kanski ekki alveg his cup of tea ;)
Ég held að þú getir bara ekki gert mikið í því þegar hugurinn reikar í átt að minningunum sem koma upp þegar þú heyrir ákveðið lag... og er þetta alveg yndislegt þegar minningarnar eru gleði minningar. Það er svo yndislegt þegar þú byrjar að brosa og færð yfir þig þessa gleði tilfinningu og dagurinn getur hreinlega tekið u beygju. Ég á líka nokkur lög sem kannski minna mig á einhverja sorg.... sem betur fer ekki mörg... og aðalega er þetta eitthvað sem hefur nú gróið vel og ég hugsa bara ææjjj já en fyndið að ég hafi grátið yfir þessu.
Lagið Someone like you með Adele tekur mig alltaf til mars/apríl 2011 og á ég bara rosalega erfitt ennþá með að hlusta á þetta lag... það er eiginlega að verða vandræðanlegt. Ég tel mig vera komin á mjög góðan stað með sorgina sem fylgdi fæðingu Viktors og slæmir dagar eru bara algjör undantekning. Þetta lag hefur bara einhver tök á mér og þegar ég heyri það þá fer ég öll í kerfi og þarf að berjast við að halda tárunum inni. Ég hef í ófá skipti þurft að sitja einhverstaðar og einhver bara ohhhh mér finnst þetta bara alveg frábært lag.... ég bara já..... og berst í gegnum lagið. Því mér finnst erfitt að útskýra hversvegna ég á erfitt með að hlusta á það, því það er ekki textinn sem talaði til mín þegar ég var í sorginni heldur tilfinningarnar sem fylgja þessu lagi og setningar teknar úr samhengi. Sometimes it hurts instead..... bitter sweat this would taste... I wish nothing but the best for you.... Ég vissi nefnilega ekki fyrir fæðingu Viktors að það væri hægt að vera svona glaður og sorgmæddur á sama tíma, að hafa svona tvennslags tilfinnigar innanborðs var mér svo nýtt. Því oftast er það gleði en sometimes it hurts instead... og mig langaði bara að segja fólki það að þetta væri bara smá vont eeeennn ég var líka svoooo rosalega glöð. Eins og allir foreldrar þá viljum við börnunum okkar bara það allra besta og þegar Viktor fæddist þá kom ný vídd í lífið. Eins og ég hef sagt áður þá voru bara hlutir sem maður hafði aldrei hugsað um fyrir Andreu að koma upp í huga manns þegar maður hélt á þessum nýfædda einstaklingi. Ég man ekki hversu oft ég stóð mig að allskonar hugsunum hvernig verður þetta og hitt... og svo grúfði ég mig niður og hugsaði I wish nothing but the best for you....... Já þetta lag hefur ennþá vandræðanlega mikil tök á mér og sat ég bara núna síðasta laugardag með allri fjölskyldunni við imbann að horfa á Strictly come dancing (breskan dansþátt) þegar þetta lag kom og tárinn byrjuðu að leka... Andrea skildi ekkert í því að ég væri nú orðin leið yfir dansþætti hahahah. Óli bara horfði á mig og sagði ekki neitt fyrr en börnin voru farin að sofa. En ég held nú bara að þetta sé allt saman partur af því að komast yfir sorgina og eins og Emily Perl Kingsley orðaði það svo vel í sögunni sinni um Holland og Ítalíu sem ég hef póstað áður hér á síðunni.

The pain of what you had planed will never, ever, ever, ever go away… because the loss of that dream is a very significant loss.
But… if you spend your life mourning the fact that you didn’t get to Italy, you may never be free to enjoy the very special, the very lovely things … about Holland. :)
Með þessum fallegu orðum kveð ég = tilfinningahrúaldið ykkur að sinni ;)
S


Wednesday, 10 October 2012

Gleðigjafar :)


Gleðigjafar er bók sem mig langar eindregið að beina athygli ykkar að. Þetta er bók sem tekur saman frásögn foreldra barna sem eru sérstök á einhvern hátt, með alvarlegan sjúkdóm eða fötlun. Thelma Þorbergstóttir og Sigrún Ósk Kristjánsdóttir tóku saman frásagnir foreldranna og var það einmitt Thelma sem hafði samband við okkur og spurði hvort við værum ekki til í að vera með. Ég kynntist Thelmu í gengum gamla vinkonu og var alveg einstaklega gott að geta talað við hana og fá styrk frá þeim og Kristófer og að fá að lesa bloggið þeirra. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um þegar hún athugaði hvort við vildum vera með því það var einmitt svona bók sem ég hefði viljað lesa þegar Viktor fæddist og auðvitað líka áður. Mér finnst þetta vera góð lesning fyrir alla einlægar frásagnir foreldra sem koma beint frá hjartanu. Bókin er semsagt í prentun núna og kemur út í næsta mánuði. Svo allir að fara út og kaupa sér eitt eintak. :)

S

Friday, 5 October 2012

Sísvangur tákn með tali krúttrass

Langaði aðeins að segja ykkur frá því að við notum og höfum notað síðan Viktor var mjög lítill tákn með tali. Það er ekki táknmál heldur tákn með sumum orðum sem maður notar þegar maður talar. Þessi talháttur er notaður í mjög mörgum löndum og þá sérstaklega fyrir börn sem eru þá með einhver syndrome, sein til tals eða einhverskonar málheltu. Ég veit til þess að á Íslandi er þetta líka notað á mjög mörgum leikskólum og sérstaklega þegar er sungið. Þeir sem ég þekki sem hafa notað tákn með tali segja að oft þá hafa börnin meiri orðaforða en jafaldrar og geta því tjáð sig meir. Fyrir okkur íslendinga er til æðisleg heimasíða með öllum táknunum og góðum útskýringum, hreyfimyndum til að læra tákninn. www.tmt.is Táknin á milli landa eru ekki alveg þau sömu en mjög svipuð. Við ákváðum að notast við Hollensku táknin strax frá upphafi. Það er mun léttara fyrir okkur tvö að læra þau tákn heldur en að láta alla á leikskólanum og þá sem vinna með hann að læra íslensku táknin. Það sem við byrjuðum með var að nota alltaf tákn með ertu svangur/ viltu borða og þegar við vorum að gefa honum að borða þá sýndum við honum táknið. Einnig með að drekka. Táknin fyrir þetta eru allir puttarnir saman að munninum eins og maður sé að fara að borða eitthvað og drekka er eins og maður sé að fara að sjúga þumalinn og hellir í leið eins og úr glasi. Þetta höfum við gert líklegast frá 6 mánaða aldri og er árangur "erfiðiðsins" að koma núna. Drengurinn viriðist bara vera sísvangur hahahah eða að honum finnst ógurlega gaman að gleðja foreldra sína og sýna listir sínar :) Fyrsta sem hann gerir þegar hann vaknar á morgnana er að tákana borða og þegar hann kemur úr leikskólanum þrátt fyrir að vera nýbúin að borða.... og matarlyst hefur hann alltaf. Sérstaklega í það sem honum þykir gott, hann verður líklega ekki kallaður Vikki beikon eins og faðir hans grínaðist með fyrst eftir að hann fæddist heldur Vikki franska :D Franska... já hann tekur þetta svo bókstaflega með þjóðarétt Belga... heldur að maður eigi bara að borða þetta í öll mál og er gjörsamlega sjúkur í franksar. Já þetta er ekkert smá fyndið og horfum við stundum á hvort annað og förum að skelli hlæja, þegar það er ríflegur hálftími síðan hann borðaði og hann táknar aftur að hann sé svangur ;) 
En mikið gleður það okkur að hann sé farinn að tákna og verður og er mikið léttara og minna um pirring að hans hálfu.

yfir og út
S