Sunday 17 November 2013

Gói minn

Ég hef skrifað hér á blogginu mínu áður um fullkomnun og hvað er að vera fullkominn. Þegar við áttum heima í Danmöku var ég svo heppin að kynnast stelpu frá Ástralíu. Ann Marie kom mér fyrst fyrir sjónir sem kannski smá dekurrófa. Yngsta barn foreldra sinna, ákvað að menntun var ekkert fyrir hana og að hún hafði sett sér markmið að vera ein ríkasta kona Ástralíu fyrir þrítugt. En þegar ég kynntist henni þá sá ég að það var svo mikið í hana spunnið... mér fannst hún svoldið gróf og hún hennti öllu bara framm eins og það var. Hún er trú sjálfri sér og þegar ég átti mín myrkrustu augnablik eftir fæðingu Viktors þá fannst mér gott að tala við hana og sjá hvernig hún horfði á lífið og hversu rosalega "honest" (heiðarleg) hún er og segir hlutina einfaldlega eins og þeir eru.  No more no less.... 
Þessi vinkona mín er með fyrirtæki með mömmu sinni og systur sem gerir meðal annars svona orku armbönd og heldur líka út vefsíðu og bloggi. Á blogginu þeirra þá skrifaði hún í gær svo innilegan pistil um að vera trúr sjálfum sér og veikleika sína(Authenticity and my vulnerability). Mér fannst þetta frábær skrif hjá henni og veltir hún þar upp mínum fyrri vangaveltum um fullkomnun og staðfesti ég með þessum lestri hvað mér finnst um leitina að fullkomnun og hvað það er mikilvægt að vera trúr sjálfum sér. Held að ég hafi einhverntíman eftir að ég flutti að heiman byrjað á því að hugsa um hvað það er mikilvægt að vera trúr sjálfum sér. En eitt af þeim fjölmörgu atriðum sem Viktor hefur hjálpað mér með er einmitt líka það... að vera trú sjálfri mér og viðurkenna veikleika mína. Mér fannst hún vinkona mín koma svo vel að orði og ætla ég því að leyfa broti af texta hennar að fylgja á ensku þar sem mér finnst mjög erfitt að þýða þessi orð. Þau koma hálf kjánalega út á íslensku. 
"If you are to think anything then let it be ‘stay authentic’ and  ‘let ‘me’ show up because that’s the greatest gift to anyone’. Always remember there are others who are feeling what you’re feeling, no one or no-ones life is perfect- because perfection is unattainable and not authentic. You are a blessing. Your AUTHENTIC self is a blessing and when you are authentic you can achieve your greatest potential, touch others lives, get in your flow and make an incredible difference to this world."
 Hér er svo hægt að lesa pistilinn í heild sinni á vefsíðunni hjá Sanctus stones.

Svo yfir í allt annað, mikil gleði braust út hér á þessu heimili 6. október þegar ný stundin okkar byrjaði... Ekki það að við höfðum ekki miklar mætur á henni Skottu og horfðum við mikið á hana.... Heldur er hann Viktor okkar með algjört æði fyrir honum Góa :D Jáhá..... það stefndi nefnilega í það að allt fullorðið heimilisfólk og gestir fengju algjöra gubbu á þeim manni(og auðvitað Þresti;)) þar sem að einu tvær dvd myndirnar sem gullpungurinn vill horfa á eru Gói og baunagrasið og Eldfærinn. Okkur þótti þetta val samt alveg frábært svona miða við uppáhald eldri systur hans nokkrum árum áður, það er söngvaborg :). Þessi ótrúleg ást á þessum myndum er svona smá merkilegt því það er ekki svo langt síðan Viktor fór að horfa að einhverju viti og héldum við bæði að þetta væri jafnvel of flókið fyrir hann en það sem ég held að geri þetta svona uppáhalds eru lögin sem koma inn á milli og svo auðvitað þessi skemmtilegi húmor... Viktor er nefnilega algjör húmoristi;) og alveg einstaklega tónelskur. En semsagt við fullorðna fólkið getum sungið með hverju lagi og farið með öll hlutverkin í leikritunum by hart :D Svo þegar við fréttum að Gói væri að taka við Stundinni okkar þá vorum við ógurlega fegin því jú jú okkur finnst hin ævintýrin mjög skemmtileg en þegar þetta er á hverjum degi og kannski svona tja nokkrum sinnum á dag þá fær maður smá nóg :).

Þannig það var mikil gleði á okkar heimili þegar nýja Stundin Okkar byrjaði og bíðum við núna spent eftir nýjum þætti á hverjum mánudags morgni. Það er ekki laust fyrir að við fullorðna fólkið verðum smá skúffuð ef starfsmenn rúv hafa klikkað eitthvað og gleymt okkur... hahah þar sem að þá þurfum við að horfa á sama þáttinn aftur einn dag í viðbót. Þetta er nefnilega þannig að þegar Viktor fer í astma tækið sitt á hverjum morgni þá er þetta það eina sem heldur honum í þær 10 mínútur sem hann þarf að vera í því :D Svo það eru 10 mín á morgnana og 10 mín á kvöldin x 7 svo já við sjáum hvern þátt að minnsta kosti 14 sinnum...Ég er því líka mjög þakklát hversu flottir þættirnir eru og hafa mikinn boðskap og tala nú ekki um öll löginn. Það er ekki laust fyrir að ég sé jafnvel spenntari en krakkarnir að sjá nýjan þátt á mánudögum. hahaha Viktori hefur meira að segja tekist að segja Go Go (sterkt G hljóð og voðalega krúttlegur stútur á munninum) sem er svona smá svekkjandi fyrir okkur foreldrana þar sem að það er nú ekki svo langt síðan hann náði að segja mamma og pabbi :D En öll framför eru gleðiefni hér á bæ :D. Hann trallar einnig með í upphafsalginu uuuu uuuuu uuuuu og vona ég bara að hann verði farinn að syngja það alveg í vor ;). Svo er líka svo gaman að heyra Andreu syngja íslensk dægurlög og veit ég að það er tilkomið með nýju stundinni okkar.
Andrea sá hann Góa í sundi síðasta sumar og var mjög uppveðruð og þótti það mjög merkilegt..... Hún spurði mig um daginn hvað ég héldi að Viktor myndi gera ef hann myndi bara sjá Góa í sundi. Ég held hreinlega að hann myndi missa sig af spenningi ef úr yrði og ég held að ég veðji frekar á að reyna að ná honum næsta sumar á leiksýningu eða annari skemmtun:) En vonandi fær hann samt að hitta átrúnaða goðið sitt næst þegar við komum því þegar þessi klumpur er glaður þá bræðir hann allt og alla í kringum sig með brosi sýnu og hlátri. :D





Við sáum því miður rautt í gær.... eins mikil og gleðin var í byrjun leiks þá vorum við heldur leið og skúffuð þarna í kringum 60. mínútu. Okkur fannst okkar maður standa sig með stakri príði og gera það eina rétta í þessari stöðu. Við erum ógurlega stolt af honum og hefði ég helst viljað sitja með honum í búningsklefanum mínturnar 40 sem hann sagði að hafi verið einar af þeim verstu og styðja hann. Hann á allavegana mikið og stórt stuðningslið hérna heima :).



þangað til næst.
S

Monday 4 November 2013

Tímabil..


Nýlega hefur fólk svona aðeins verið að spurja mig eða segja við mig vá hvað það er stutt á milli hjá ykkur. Ekki tvö ár!! 
Ég hef lítið hugsað út í það en þegar ég gekk inn á spítalann í Waregem í síðustu viku þá fann ég að fólk horfði... Þarna var ég með Viktor og Freyju í kerrunni og Andrea hélt í kerruna hjá mér. Það er líka kannski ekkert að gera mér greiða að ég hef seint verið kölluð fullorðinsleg. Eins byrjar fólk að eignast börn hérna í Belgíu aðeins seinna en til dæmis heima. Svo verandi lítil og barnaleg hjálpar ekki. Alveg eins fannst mér fólk horfa þegar ég fór með Viktor til sérfræðings á spítalanum í Gent í síðasta mánuði. Já eða þegar við Elsa brugðum okkur með börninn á götuhátið í bænum fyrir nokkrum vikum. Fólk er ekkert að stara á leiðinlegan hátt ef hægt er að segja svo... oft fylgir bros á eftir. En það rekur alveg upp augu... 
Ég hló nú svoldið inní mér þegar ég labbaði inn á spítalann... Þannig var nú í pottinn búið að ég var búin að panta tíma fyrir Andreu og Viktor á nánast sama tíma til að slá tvær flugur í einu höggi... og fannst mér þetta hin besta hugmynd þar til Óli hringdi og sagði að það væru tvær æfingar þennan sama dag. Svo um spítalann þeyttumst við á ógnar hraða öll saman og fólk gaf okkur auga, en náðum við þessu öllu saman þótt ótrúlegt megi virðast. 

En eins og ég sagði þá er kannski eins og fólk sé svona smá að þora núna að spyrja okkur út í þetta hvað það er stutt á milli... Eins og amerísk vinkona sagði við mig... " what were you thinking??" og ég svara í fullkominni hreinskilni "It felt like a good idea at that time"
Ég get sagt ykkur það að það er ekki hægt að útskýra þetta, nema eins og ég hef sagt. Um leið og Viktor fæddist þá sögðum við Óli við hvort annað að við vildum eignast annað barn og hafa stutt á milli. Það eru margir sem hafa stutt á milli barnanna sinna og er það alveg eðlilegt en mér hefur fundist fólk ekki alveg skilja afhverju við vildum hafa stutt á milli útaf fötlun Viktors.
Ég get alveg reynt að útskýra þetta betur með alskonar staðreyndum.... en ég held ég geti ekki fullkomlega útskýrt þetta. Ég held að foreldrar sem eiga börn sem eru fötluð á einhvern hátt vita hvernig tilfinning þetta er og afhverju maður tekur þessa ákvörðun. Ekki miskilja mig mér finnst ég ekkert þurfa að útskýra mig neitt en ég fór að velta þessu fyrir mér þegar fólk fór að spyrja mig meira. Þegar ég var að velta þessu fyrir mér þá hefur mér þótt erfiðast að ég geti ekki útskýrt þetta fyrir mömmu eða teingdó...Ég held alveg að þær skilji okkur vel en ég vildi bara að þær skilji alveg afhverju við tókum þessa ákvörðun en þá er ég alltaf komin á sama stað. Það er bara eiginlega ekki hægt nema að vera í sömu aðstöðu.
Ég hugsaði alltaf já ok ca tvö ár er nú allt í lagi... það er fullt af fólki með svo langt/stutt á milli. Það sem ég var ekkert að hugsa of mikið út í er að jú það eru margir sem eiga börn með tveggja ára milli bili og það er mjög krefjandi. En við ætluðum að hafa ca tvö ár á milli og eigum heima í útlöndum langt frá fjölskyldu okkar og vinum og litli strákurinn okkar er með down heilkennið og er því aðeins meira sem fylgir í kringum hann. Svo jú ég skil kannski smá að fólk reki upp þriðja augað þegar það sér okkur hahaha... 
Við fórum úr því að vera þrjú í að vera fimm á stuttum tíma og því breytinginn mikil fyrir okkur og ekki síst Andreu. Þetta hefur og er mjög krefjandi og þakka ég bara guði fyrir hversu góða fjölskyldu við eigum og erum með góða au pair núna. En eins og mamma hefur svo oft sagt við mig, þetta er bara tímabil oog eftir á bara mjög stutt tímabil. Hljómar það því iðulega í hausnum á mér þegar ég geng um á síðustu bensín dropunum.... "stutt tímabil" :)


Viktor hefur verið gjarn á að fá lungnabólgu oftast útfrá "gubbupest" sem kom svo í ljós að var ofnæmi og oftast endaði á spítala. Raskar það því öllu hjá stórri fjölskyldu, því ekki er hægt að kalla í ömmur og afa eða frænkur og frændur til að fá hjálpa. Höfum við því verið í einskonar limbói til að reyna að gera allt til að koma í veg fyrir þetta hjá honum. Ég dett iðulega í að "over analysa" allt... hvað hefur hann borðað hvernig andaði hann? fékk hann astma lyfið og fleira.
En Síðan í maí er hann búin ad vera svakalega flottur. Hann hefur tekið mikið stökk í öllum þroska og stækkað heil ósköp og erum við voðalega glöð og þakklát.
Svo kom veturinn og gullklumpurinn fékk gubbupest, þá byrjaði limbóið ... Hvað borðaði hann, hvað fékk hann í leikskólanum? Eru hægðirnar mjúkar..... Var þetta kannski bara venjuleg gubbupest?  við tóku nokkrir dagar í svitakasti yfir því hvort hann myndi fá lungnabólgu eða hvort hann myndi ná sér. Litli herforinginn okkar tók sér góðan tíma í að ná sér en fór í leikskólann eftir viku og í militíðinni varð Freyja veik. Hann var voða kátur en með kvef, svo lögðust pabbinn og Andrea í gubbuflensu pest og endaði það svo illa að Óli varð að leggjast inn á spítala á miðvikudaginn. Jahá hann fékk semsagt pestina svona hrottalega slæma. (Vírus heilahimnubólga.. Ekki þessi slæma það er bakteríu) En Viktor var hress og kátur og fór í leikskólann en á klukkutíma á fimtudags kvöldið byrjaði hann að verða eitthvað ólíkur sjálfum sér... svo varð hann andstuttur og svo var eins og meðvitundinn væri að minnka. Ég með Óla í símanum til að reyna að ákveða hvað við ættum að gera (hann ennþá inná spítalanum)... þegar hitinn hafði hækkað mikð á aðeins 20 mínótum þá tók ég þá ákvörðun að keyra með allt liðið á spítalann. Litli karlinn fór beint í röntgen og var staðfest lungnabólga nokkru síðar og í framhaldi fékk hann sýklalyf í æð, súrefni og í hjartalínurit. Þetta er alveg hrikalega óhugnalegt hversu fljótt þetta gerist hjá honum og hversu rosalega veikur hann verður, nánast bara eins og hann sé í kóma.
Þá byrjar limbóið og "over analyse" hjá mér... eigum við að fara með hann í ákveðinn skanna á lungunum?, hefði veirð hægt að komast hjá þessu? Getur verið að þetta sé útaf gubbupestinni? Samviskubit gagnvart stelpunum mínum og að geta ekki alltaf verið hjá Viktori. Hræðsla yfir að allt sé í lagi með Óla og þegar bensínið er alveg á þrotum þá hljóma orð mömmu í eyrum mér.... "þetta er bara tímabil".... :D



Jáhá nóg að gera á Goddastöðum. Einhverstaðar í millitíðinni þá fór ég með Freyju í stuttan kaupmannahafnar túr og án hans þá held ég að ég hefði skrifað mig sjálfa inn á einhvern spítala eftir síðustu daga :D Þvílík vítamín sprauta sem það var að fá að vera með systrum mínum, hitta pabba og síðast en ekki síst hitta yndislegu vinkonur mínar og maka. Ég bara get ekki lýst því hvað mér finnst ég bara heppinn og hlakkar svo óendanlega mikið til þegar ég verð flutt heim og get verið inná gafli hjá fjölskyldunni endalaust og umgengist vinina meira.







Og svona í lokin Elsa rocks ;)

S